Uppskriftasíða

Friday, December 30, 2005

Litla syndin ljúfa

140g smjör og meira til að smyrja formin
140g 70% súkkulaði
2 egg
3 eggjarauður
140g flórsykur
60g hveiti

Hitið ofninn í 220°C (ekki nota blástur). Smyrjið 6 lítil souffléform eða bolla vel með smjöri (mikið smjör ef það á að hvolfa kökunni heilli). Setjið smjör og súkkulaði í pott og bræðið við vægan hita. Takið af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðið. Þeytið egg og eggjarauður í skál og setjið svo flórsykurinn út í og þeytið vel. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og þeytið á meðan og hrærið að lokum hveitinu saman við. Skiptið deiginu jafnt í formin og gætið þess að fylla þau ekki alveg. Setjið formin á plötu eða í ofnskúffu og bakið kökurnar í 11-12 mínútur. Takið þær út og látið kólna í u.þ.b. 3 mínútur. Rennið hnífsblaði í kringum kökurnar til að losa betur um þær og hvolfið þeim á diska. Það er flott að sigta smá flórsykur yfir kökuna og bera fram með ávöxtum, ís og jafnvel e-m sósum, berjasósur eru góðar svo og vanillusósa!

Ef deigið er tekið beint úr kæli og sett í formin eru 14 mínútur hæfilegur bökunartími og ef deigið hefur verið kælt í formunum má bæta við 1-2 mínútum í vibót. Hef oft gert deigið daginn áður og það er í góðu lagi!

Ég geri alltaf prufuköku í nýjum ofni svo kakan verði akkúrat, betra að hafa hana fljótandi en þurra!
Eins er rosa gott að bæta við smá appelsínudropum eða líkjör í deigið til að fá annað bragð, bara smakka til að finna hvað hæfir :o)

Toblerone-ís

- 6 eggjarauður (ég notaði reyndar bara þrjár)
- 1 bolli púðursykur
- 1 tsk vanilludropar
- 1/2 líter rjómi
- 100 gr. toblerone

Þeyta eggjarauður og púðursykur mjög vel saman. Vanilludropar settir út í. Þeyta svo rjómann og saxa súkkulaðið og blanda því varlega saman við eggjahræruna. Setja svo beint í frysti. Þarf ca. eina nótt til að frjósa.

Thursday, December 01, 2005

Sörur

BOTN:
200 gr fínt malaðar möndlur, best að taka möndluflögur og mala þær (ég krem þær bara í morteli)
3 ¼ dl flórsykur sigtaður
3 eggjahvítur

Eggjahvíturnar stífþeyttar. Möndlunum blandað saman við flórsykur og því svo blandað saman varlega við þeyttar eggjahvíturnar. Deigið sett með teskeið á bökunarpappír og bakað við 180°c þangað til þær eru tilbúnar, u.þ.b. 10 mínútur.
ATH. Fylgjast vel með kökum í ofninum.

SMJÖRKREM:
¾ dl sykur
¾ dl vatn
3 eggjarauður
150 gr smjör, búið að standa
1 matsk kakó
1 tsk kaffiduft, (kremja þangað til það er orðið að púðri)

Vatn og sykur soðið saman í sýróp, tekur ca. 8-10 mín. Sýrópið þarf að vera farið að þykkna, passa að þetta sé ekki vatn með sykri lengur. Þeyta eggjarauður þangað til þær eru kremgular og þykkar. Hellið þá sýrópinu í mjórri bunu út í og þeytið á meðan. Látið kólna. Mjúku smjörinu bætt út í og þeytt á meðan. Kakó og kaffidufti bætt út í. Þá er kremið tilbúið. Kremið þarf að kólna mjög vel. Set það í ísskápinn í sólarhring eða frystinn þegar ég nenni ekki að bíða. (ég geri alltaf tvöfalda uppskrift af kreminu á móti einni af botnunum)

Þykku lagi af kremi smurt á botninn (slétta hliðin) á kökunum og kremhliðinni síðan dýft í bráðið súkkulaði. Ég smyr suðusúkkulaði á kökurnar og bræði það í örbylgjunni svo það sé ekki of heitt. Sumir nota líka völsuhjúpsúkkulaði en finnst hitt betra!

ATH. Það er ekki hægt að stytta sér leið. Það þarf að gera þetta allt til að kökurnar séu góðar. Þetta er mjög seinlegt og fólk þarf að hafa góðan tíma.