Botn:
5 hafrakexkökur
1/2+ bolli Special K (eða meira hafrakex)
2 msk brætt smjör
2 msk púðursykur
Hafrakexið og Special K mulið saman (t.d. í matvinnsluvél eða með því að setja það í plastpoka og rúlla með kökukefli). Púðursykrinum blandað vandlega saman við og síðan smjörinu. Sett í meðalstórt smelluform og þjappað með skeið.
Fylling:
1 stór dós vanilluskyr
2,5 dl rjómi
2 límónur (lime)
1-2 msk sykur eftir smekk
1-2 msk sjóðandi vatn
1 tsk vanillusykur
5 matarlímsblöð
Matarlímið lagt í bleyti í köldu vatni. Börkurinn rifinn af annarri límónunni, settur í skál og sjóðandi vatni hellt yfir. Safinn kreistur úr báðum límónunum, settur í skálina með berkinum, ásamt með sykrinum. Hitað í ca 30 sek í örbylgjunni. Mesta vatnið kreist úr matarlíminu og það síðan leyst upp í límónusafanum/vatninu. Blandan kæld aðeins. Rjóminn þeyttur og skyrinu hrært út í, síðan er límónu-matarlímsblandan hrærð út í. Hellt yfir botninn.
Kælt í nokkra tíma. Losað úr forminu og sett á kökudisk. Ferskum eða frosnum ávöxtum dreift yfir og í kring......
-------------------------------------
Það má eflaust leika sér talsvert með þessa uppskrift: skyrið, rjóminn og matarlímið er uppistaðan í fyllingunni en prófa má mismunandi bragðefni og einnig mismunandi skyrgerðir. Einnig má nota e-ð annað kex í botninn, t.d. maltakex eða prins póló fyrir sætari botn, eða bara e-ð morgunkorn eða jafnvel blöndu með múslí fyrir 'hollari' botn. Svo má náttúrulega sleppa botninum og búa bara til frómas eða búðing og bera t.d. fram með ávöxtum og/eða sósu...